Saturday, October 27, 2007

TIM Festivalið í Rio

Í gær spiluðum við á TIM festivalinu í Rio De Janiero.
Það gekk nú ekki slysalaust fyrir sig.
Í fyrsta lagi var engin hljóðprufa vegna þess að sviðið var rafmagnslaust á þeim tíma sem hljóðprufan átti að vera.
Ég týndi málmstykki úr trompetinum mínum, sem er fremur ergilegt,
svo rétt áður en við áttum að stíga á svið uppgötvuðu ég og Sigrún að við höfðum steingleymt að fara í fánavestin innan undir búningana og þurftum því að hlaupa tilbaka inn í búningsherbergi, og fórum másandi upp á svið.
Þegar á sviðið var komið kom í ljós að þráðlausi hljóðneminn minn var ónýtur sem gerði það að verkum að í hvert skipti sem ég hreyfði mig eða blés í lúðurinn kom mikið og hátt óhljóð sem minnti einna helst á þrumugný.
Þurfti því hljóðnemamaðurinn að hlaupa til og vesenast í öllum brass-stelpunum til að finna út hver væri með ónýta hljóðnemann og skipta um svo lítið bæri á.
Þegar tónleikunum lauk lenti Production-Manager-inn okkar í því óhappi að setja höndina inní stóra viftu sem er alltaf fremst á sviðinu, svo að hluti af
vinstri löngutöng fór nánast af og varð hann að dvelja á brasilískum spítala í nótt.
En þrátt fyrir hrakfarir skemmtum við okkur vel, og erum nú komin til Sao Paulo, en við spilum aftur á TIM festivalinu hér í borg á morgun.

Við fórum í túristaferð uppá Corcovado-fjall að sjá hina margfrægu Jesú-styttu




Brynja að grína


Útsýnið er ekki slæmt uppi á Corcovado


Wonderbrass-hópurinn var í miklum ham eftir tónleikana (það vantar samt Sigrúnu eldri á myndina)


Gael Garcia Bernal sagðist vera hrærður yfir nærveru okkar, og það vorum við Særún líka, eins og sjá má


Við komumst í hann krappan þegar við fundum tímarit frá Fróða á flugvellinum í Rio


Svona lítur huggulega hótelherbergið mitt út hér í Sao Paulo


Svona eru hins vegar hrörlegar vistarverur nágranna okkar við hliðina á fína hótelinu

Wednesday, October 24, 2007

Rigning í Rio

Nú erum við sumsé komin eftir langt og strangt ferðalag til Rio De Janiero í Brasilíu.
Eins og sönnum Íslendingum sæmir komum við með skítaveðrið með okkur til Rio, en það fór að rigna um svipað leyti og við lentum, og á að rigna mest allan tímann sem við dveljum hér í Rio.
Við létum veðrið þó ekki aftra okkur, heldur fórum í gær í City of God fátækrahverfið sem er í hlíðunum rétt fyrir ofan hótelið okkar.
Það var magnað að sjá hvað fólk getur gert úr litlu sem engu fjármagni, og fórum við m.a. í skóla þar sem krakkar læra dans, söng, leiklist og kvikmyndagerð.
Skólastjórinn sagði okkur að þeir sem færu ekki í skólann enduðu iðulega sem dópsalar og/eða morðingjar.
Við fórum í fylgd með Claudie sem er brasilísk og þekkir vel til í hverfinu, en hún vann m.a. við kvikmyndina City of God, og hittum við einmitt einn aðalleikara myndarinnar í listaskólanum.

Í City of God búa um 30 þús manns


Brasilískur kórsöngur


Ströndin sem tilheyrir hótelinu okkar


Fátækrahverfið fyrir ofan hótelið
Image and video hosting by TinyPic

En í kvöld förum við í sándtékk fyrir TIM festivalið sem er á morgun.
Það verður fjör.

Friday, October 19, 2007

S-Ameríka

Nú fer að styttast í brottför, en við höldum til S-Ameríku snemma á þriðjudaginn.
Fyrsti viðkomustaður okkar er Brasilía, en við munum spila á TIM festivalinu í Rio de Janiero, Sao Paolo og í Curitiba. Þaðan förum við til Argentinu, Chile, Perú og endum í Kólumbíu.
Það verður heilmikið flandur á okkur, en á tæpum 4 vikum munum við fara í hvorki meira né minna en 13 flug.
Því verður ekki neitað að ég sé að verða ansi spennt yfir för okkar þarna niðureftir, en líka eilítið kvíðin.
Það sem ég kvíði þó einna mest er að fá einhver illindi í magann, því við þurfum þrátt fyrir allt glens að spila á tvennum tónleikum í hverri viku.
En maður er sosum búin að láta bólusetja sig fyrir öllu sem hægt er að bólusetja mann fyrir, svo nú ætti mér óhætt að vera bitin af sjúkum hundi, fá gulu-sóttina og að gista í skógum Amazons ef það ber undir.

En í næstu viku ætla ég að baða mig á þessari strönd: