Sunday, April 27, 2008

N-Írland

Síðustu daga höfum við alið manninn í Belfast á N-Írlandi.
Í dag gerðumst við meiriháttar túristar og fórum í dagsferð að skoða ekta írskan viský-búgarð og frægu steinklappirnar að Giant Causeway. Fyrir utan að vera algert náttúruundur eru steinklappirnar þekktar fyrir að prýða Led Zeppelin plötuna: "Houses of the Holy".
Mér þykir skemmtilegt hversu náttúra N-Írlands er lík íslenskri náttúru, en í dag leið okkur eins og við værum í skoðunarferð heima á Íslandi.

Þessi mynd lýsir ágætlega út-á-landi-stemmningunni sem réð ríkjum þegar við vorum í Wolverhampton í síðustu viku


Þessi dama kom í eftirpartýið eftir tónleikana í Wolverhampton
Giant Causeway


Okkur fannst ekki leiðigjarnt að slaka á á steinklöppunum


Særún var í ofsastuði

Alnöfnurar blómstruðu í sveitasælunni

Já, það má með sanni segja að vorfiðringurinn hafi leikið um meðlimi Volta-bandsins í dag.
Annars eru þriðju síðustu tónleikar okkar á þessum hluta túrsins á morgun hér í Belfast.
Eigið góðar stundir lesendur góðir,

Valdís Þorkelsdóttir

Tuesday, April 22, 2008

Á fartinni

Nú er Lundúnarævintýrið á enda og hefur rútuferðalag okkar um England tekið við. Þrennir tónleikar eru að baki í Hammersmith Apollo og var stuðið á síðustu tónleikunum á sunnudag ólýsanlegt.Við spiluðum í fyrsta sinn Triumpf of a Heart við góðar undirtektir, en undir lokin á Declare Independence rann ég í öllu glimmer-konfettíinu með þeim afleiðigum að ég datt kylliflöt með trompetinn og allt mitt hafurtask sem var fremur hálfkátleg uppákoma.

Hér koma nokkrar myndir frá liðinni viku í Lundúnum:

Við fórum nokkrar á Agöthu Cristie leikritið Mousetrap sem er búið að vera í sýningu sl. 56 ár


Image and video hosting by TinyPic



Við sáum 23.078. sýningu


Image and video hosting by TinyPic



Kolla sæta kom á tónleika


Image and video hosting by TinyPic


Þessir bræður líka


Image and video hosting by TinyPic


Gestrisna Lundúnarparið, Jökull og Freydís


Image and video hosting by TinyPic


Við erum nú sem stendur norður í landi, nánar tiltekið í smábænum Plymouth.Við munu spila hér í kvöld í Pavilinois-höllinni sem er nánast alveg eins og Laugardalshöllin að innan.
Það er gaman af því.

Tuesday, April 15, 2008

Lundúnir

Við höfum nú dvalið hér í Lundúnum frá því á laugardaginn.
Gamansömu foreldrar mínir hafa heiðrað mig með nærveru sinni undanfarna daga, og höfum við gert ýmislegt menningarlegt okkur til dægrarstyttingar.

Á sögufrægum Bítla-slóðum við Abbey Road hljóðverið:
Pabbi og stúlka frá Camden-Market-landi:

Í gærkvöldi spiluðum við fyrir troðfullu húsi í Hammersmith Apollo, en þetta voru fyrstu af þremur tónleikum okkar þar á bæ.
Nokkur ungmenni frá tímaritinu Dazed and Confused fengu að fylgjast með okkur í búningaherberginu okkar, sem vakti mikla katínu hjá okkur brass-stelpunum.

Allt að gerast fyrir tónleikana:


Tónleikarnir gengu afskaplega vel og var mikið stuð í salnum. Ekki var minna stuðið í eftirpartýinu þar sem foreldrar mínir stigu laufléttan dans með okkur.
Pabbi var ekkert að hafa fyrir því að fara úr úlpunni á dansgólfinu:

Helga Ólafs og Valdís Guðmunds voru í góðum gír

Tuesday, April 8, 2008

Enn og aftur á túr

Jæja, þá er komið að því að við höldum aftur í hann eftir langt og gott frí.
Ég neita því ekki að maður sé að verða ansi spenntur að komast aftur í tónleikafílinginn, en við förum á 4 vikna Bretlandstúr á fimmtudaginn.
Fyrstu tónleikar okkar verða í Manchester núna á föstudaginn en eftir það verða þrennir stórtónleikar í Hammersmith Apollo í London. Síðan tekur við rútuferðalag um stóra Bretland þar sem að víða verður komið við.

Ég læt hér fylgja ógleymanlegt myndband frá því við vorum í Shanghai en ég gat ekki birt það þegar ég dvaldi þar sökum mikillar ritskoðunar í Kína.
Forsaga myndbandsins er sú að við fórum að sjá ekta kínverska óperu sem var um 5 klukkustunda löng. Í myndbandinu sést hvernig líðan Sigrúnar yngri var þegar einungis 15 mínútur voru liðnar af sýningunni: