Tuesday, August 26, 2008

Endastöð

Túrinn er búinn.
Það er svolítið skrýtið, ég mun líklegast ekki fatta það fyrr en eftir nokkrar vikur þegar við ættum að vera að fara aftur út.
Við eigum án efa eftir að lifa lengi á þessu ævintýri, en ég er enn að melta s.l. 18 mánuði sem hafa vægast sagt verið stórkostlegir.
En það sem tekur við er kanski aðeins hversdagslegra en skemmtilegt engu að síður.
Ég mun byrja í Tónlistarskólanum í Reykjavík í næstu viku, svo held ég áfram sem skrifta í Kastljósinu á RÚV og er byrjuð að innrétta ný heimkynni með unnustanum.

Til gamans má geta að við spiluðum á 75 tónleikum, heimsóttum 66 borgir í 32 löndum, gistum á ca. 73 hótelum og guð má vita í hvað mörg flug við fórum.

Ég þakka þeim sem heimsóttu síðuna fyrir lesturinn og vona að þið hafið orðið einhverju nær um ferðalag okkar.

Kv. Valdís Þorkelsdóttir


Wonderbrass og Jez á lokatónleikunum á Spáni

Image and video hosting by TinyPic

Friday, August 8, 2008

Ein vika eftir

Nú fer að líða að lokum hjá okkur, en það er einunis ein vika eftir af ævintýrinu mikla. Loka-giggið verður á Ola festivalinu á Spáni 15. ágúst.
Síðustu viku höfum við alið manninn í Tyrklandi og Portúgal, en erum nú í vikulangri afslöppun í Almeria á Spáni.

Það er fekar skrýtin tilfinning að þessu fari brátt að ljúka, en mikið á ég eftir að sakna þess að spila á tónleikum af þessu tagi,
svo ég tali nú ekki um að sakna túra-fólksins sem við erum búin að ferðast með síðustu 18 mánuði.
Það verður eflaust mikið skælt við sundlaugarbakkann næstu dagana.

Wednesday, July 30, 2008

Myndasýnishorn frá Berlín, Róm, Verona og Aþenu

Síðan ég skrifaði síðast á bloggið höfum við spilað á Melt! festivalinu í Þýskalandi, skoðað helstu menjar Rómaborgar, notið góðs matar og spilað í hinni mögnuðu Arenu Veronaborgar og klifið upp á Akrópólis-fjall í Aþenu.

Myndir segja fleira en mörg orð.

Þýska stálið var heldur áberandi á Melt!
Image and video hosting by TinyPic

Richard lazer-goð og Damian eru hrifnir af Tom Selleck lúkkinu
Image and video hosting by TinyPic

Ég var í miklu túristastuði við Colosseum í Róm
Image and video hosting by TinyPic

Brasspíur í Vatikaninu
Image and video hosting by TinyPic

Salóme í túristastuði við Arenuna í Verona
Image and video hosting by TinyPic

Andi múttu sveif yfir vötnum í vínkjallaranum á veitingastaðnum Dodici Postuli í Verona
Image and video hosting by TinyPic

Hópmynd af Volta bandinu og hluta af "krúinu" á Dodici Postuli
Image and video hosting by TinyPic

Þessar skvísur héldu uppi miklu stuði
Image and video hosting by TinyPic

Við fórum í sunnudagshádeginu í garðinn til Renzo og þáðum léttar veitingar
Image and video hosting by TinyPic

Renzo, Marina og co. ásamt íslenskum stuðpíum
Image and video hosting by TinyPic

Það var geggjað að spila í Arenunni í Verona
Image and video hosting by TinyPic

Í dag fórum við uppá Akrópólis hæð í Aþenu
Image and video hosting by TinyPic

Á morgun spelum við í Ólympíuhöllinni hér Aþenu sem ku vera ansi stór.

Eigiði góðar stundir og léttar lundir,

Valdís Þorkelsdóttir

Sunday, July 20, 2008

Fregnir

Nú um helgina höfum við spókað okkur um í hinni margslungnu Berlín.
Við fengum okkur víetnamskan mat á besta stað í bænum, Monsieur Vuong (fórum reyndar tvisvar!!), tókum nokkrar svart-hvítar passamyndaræmur á Kastanien Alle, misstum okkur aðeins í fata- og búsáhaldabúðum, fengum okkur Fuck-You-Fries á rockabilly-barnum White Trash Fast Food og skemmtum okkur ærlega.
Á eftir höldum við síðan í tveggja tíma rútuferð til að spila á Melt! festivalinu síðar í kvöld. Síðan er það bara Róm á morgun......stuð.

Myndir frá liðinni viku í Riga og Berlín:

Fallega Riga í Lettlandi
Image and video hosting by TinyPic

Image and video hosting by TinyPic

Maður fer ekki babúskulaus frá Eystrasaltinu
Image and video hosting by TinyPic

Lettneskur Barbie-bíll
Image and video hosting by TinyPic

Sigrún og Monsieur Vuong
Image and video hosting by TinyPic

Björk, Bergrún und Das Fotoautomat
Image and video hosting by TinyPic

Þýsk sápukúlulistakona
Image and video hosting by TinyPic

Monday, July 14, 2008

Vilnius

Í gærkvöldi spiluðum við í Vingio Park í Vilnius í Litháen.
Sú nýlunda var að um miðbik tónleikanna spiluðum við Wonderbrassið eitt verk aleinar. Það brassverk var hið magnþrungna Overture sem má finna á Selmasongs sem Björk samdi fyrir "Dancer in the Dark" kvikmyndina. Það var bæði krefjandi og skemmtilegt.

Vilnius er afar fallegur bær, þar eru evrópsk miðbæjar-rólegheit ríkjandi. Það var því ánægjulegt að spóka sig um innan um rússneskar rétttrúnaðar-kirkjur og villtumst við inn í fermingu að þeirra sið í einni kirkjunni.
Stundum er ágætt að setja sig í túristastellingar, allavegana er ekki mikil hætta á að maður missi sig í búðunum þar sem tískan í Vilnius-bæ líkist því sem var móðins í Reykjavík árið 1996. Sumsé ekkert svo smart.
Í fyrstu héldum við að einhver kvefpest herjaði á litháensku þjóðina, en komumst síðar að því að "takk" á litháensku er "atsjú".

Kátar meyjar í Vilnius
Image and video hosting by TinyPic

Björk og Björk
Image and video hosting by TinyPic

Ferðabar á hjólum
Image and video hosting by TinyPic

Tónleikarstæðið í gærkveldi
Image and video hosting by TinyPic

Monday, June 30, 2008

Náttúra

Það var meiriháttar stuð á laugardaginn þegar við spiluðum í Þvottalaugabrekkunni á Náttúrutónleikum.
Björk var með hálsbólgu en það mátti varla heyra á henni, hún kann svo sannarlega að kýla á það.
Ég minnist þess ekki að hafa spilað í eins miklum kulda og raunin var á sviðinu. Þrátt fyrir mikil hopp og ýktar danshreyfingar fórum við af sviðinu með frosnar tær og bláar varir.
Þetta var samt sem áður ótrúlega gaman og ágætis upptaktur af komandi tónleikaflakki.

Sigur rós með fyrir-tónleika-hvatningu

Wonderbrass og Brassgat í bala sameinast


Damian var í stuði en hann á heiðurinn af myndunum hér að neðan:

Ég og familían

(mynd: Damian)

Uppklappslag: Anchor Song


(mynd: Damian)

Monday, June 23, 2008

Lokatúrinn

Á morgun hefst lokaleggur Volta-túranna átta, með 7 vikna Evrópureisu.
Fyrstu tónleikarnir verða á miðvikudaginn í París en eftir það komum við aftur heim og spilum á laugardaginn í Þvottalaugabrekkunni með Sigur rós og Ólöfu Arnalds.

Það verður víða komið við í sumar, en ferðaplanið hljóðar svo:
Frakkaland-Ísland-England-Finnland-Litháen-Lettland-Þýskaland-Ítalía-Grikkland-Tyrkland-Portúgal-Spánn.

Hér sé stuð.

Saturday, June 14, 2008

Smá auglýsingar

Framundan er 7 vikna Evróputúr sem er jafnframt lokahnykkurinn á Volta ævintýrinu. Þar verður komið víða við, m.a. á auglýstum Náttúru tónleikum í Laugardal með Sigur rós og fleirum góðum.
Þeir sem hafa hins vegar áhuga á að heyra í okkur Undrabrassinu spila annars konar prógramm er bent á að hlusta á útvarpsþátt Erlu Ragnarsdóttur þann 17. júní á Rás 2 þar sem hún spjallar við einhverjar dömur úr Undrabrassinu og síðan má heyra okkur spila á gáskafullri æfingu.
Laugardaginn 21. júní spilum við á lokatónleikum Norræns Hornaþings í Salnum í Kópavogi.

Ég lofa tíðum færslum á blogginu á Evróputúrnum í sumar.

Kv. Valdís Þorkelsdóttir

Monday, May 5, 2008

Aflýsingar

Nú er ég komin heim.
Því miður var lokatónleikunum okkar í gær aflýst sökum veikinda aðalsöngkonunnar.
Okkur var tilkynnt þetta rétt áður en við fórum í hljóðprufu í gær og það var fremur svekkjandi, en við vorum komnar í mikinn stuð-tónleikagír.
Þetta var smá antí-klímax á annars öflugum túr.
En ég er komin í nokurra vikna ferðalagafrí, það er alveg ágætt að fá smá pásu frá því að búa endalaust í ferðatösku.

Valdís

Saturday, May 3, 2008

Bretlandstúrlok

Á morgun munum við spila hér í Sheffield á lokatónleikum okkar á þessum Bretlandstúr.

Þessar tæpu 4 vikur sem við höfum verið á fartinni eru búnar að vera ansi notalegar og hefur verið sveitaleg út-á-landi stemmning í hópnum síðan við fórum frá London.
Það ríkja blendnar tifinningar gangvart ofur-Evróputúrnum í júlí, sökum þess að hann er jafnframt sá síðasti. Það verður einkennilegt að fara ekki aftur á túr í haust, en það tekur eitthvað annað við.
En við byrjum lokatúrinn á afar spennandi stað sem ekki má upplýsa hver er eins og stendur.


Ég læt eitthvað í mér heyra á næstu 8 vikum sem við verðum á fagra Ísalandi, en læt hér í lokin fylgja tvær myndir sem teknar voru á Hammersmith Apollo tónleikum í London:




Sunday, April 27, 2008

N-Írland

Síðustu daga höfum við alið manninn í Belfast á N-Írlandi.
Í dag gerðumst við meiriháttar túristar og fórum í dagsferð að skoða ekta írskan viský-búgarð og frægu steinklappirnar að Giant Causeway. Fyrir utan að vera algert náttúruundur eru steinklappirnar þekktar fyrir að prýða Led Zeppelin plötuna: "Houses of the Holy".
Mér þykir skemmtilegt hversu náttúra N-Írlands er lík íslenskri náttúru, en í dag leið okkur eins og við værum í skoðunarferð heima á Íslandi.

Þessi mynd lýsir ágætlega út-á-landi-stemmningunni sem réð ríkjum þegar við vorum í Wolverhampton í síðustu viku


Þessi dama kom í eftirpartýið eftir tónleikana í Wolverhampton
Giant Causeway


Okkur fannst ekki leiðigjarnt að slaka á á steinklöppunum


Særún var í ofsastuði

Alnöfnurar blómstruðu í sveitasælunni

Já, það má með sanni segja að vorfiðringurinn hafi leikið um meðlimi Volta-bandsins í dag.
Annars eru þriðju síðustu tónleikar okkar á þessum hluta túrsins á morgun hér í Belfast.
Eigið góðar stundir lesendur góðir,

Valdís Þorkelsdóttir

Tuesday, April 22, 2008

Á fartinni

Nú er Lundúnarævintýrið á enda og hefur rútuferðalag okkar um England tekið við. Þrennir tónleikar eru að baki í Hammersmith Apollo og var stuðið á síðustu tónleikunum á sunnudag ólýsanlegt.Við spiluðum í fyrsta sinn Triumpf of a Heart við góðar undirtektir, en undir lokin á Declare Independence rann ég í öllu glimmer-konfettíinu með þeim afleiðigum að ég datt kylliflöt með trompetinn og allt mitt hafurtask sem var fremur hálfkátleg uppákoma.

Hér koma nokkrar myndir frá liðinni viku í Lundúnum:

Við fórum nokkrar á Agöthu Cristie leikritið Mousetrap sem er búið að vera í sýningu sl. 56 ár


Image and video hosting by TinyPic



Við sáum 23.078. sýningu


Image and video hosting by TinyPic



Kolla sæta kom á tónleika


Image and video hosting by TinyPic


Þessir bræður líka


Image and video hosting by TinyPic


Gestrisna Lundúnarparið, Jökull og Freydís


Image and video hosting by TinyPic


Við erum nú sem stendur norður í landi, nánar tiltekið í smábænum Plymouth.Við munu spila hér í kvöld í Pavilinois-höllinni sem er nánast alveg eins og Laugardalshöllin að innan.
Það er gaman af því.

Tuesday, April 15, 2008

Lundúnir

Við höfum nú dvalið hér í Lundúnum frá því á laugardaginn.
Gamansömu foreldrar mínir hafa heiðrað mig með nærveru sinni undanfarna daga, og höfum við gert ýmislegt menningarlegt okkur til dægrarstyttingar.

Á sögufrægum Bítla-slóðum við Abbey Road hljóðverið:
Pabbi og stúlka frá Camden-Market-landi:

Í gærkvöldi spiluðum við fyrir troðfullu húsi í Hammersmith Apollo, en þetta voru fyrstu af þremur tónleikum okkar þar á bæ.
Nokkur ungmenni frá tímaritinu Dazed and Confused fengu að fylgjast með okkur í búningaherberginu okkar, sem vakti mikla katínu hjá okkur brass-stelpunum.

Allt að gerast fyrir tónleikana:


Tónleikarnir gengu afskaplega vel og var mikið stuð í salnum. Ekki var minna stuðið í eftirpartýinu þar sem foreldrar mínir stigu laufléttan dans með okkur.
Pabbi var ekkert að hafa fyrir því að fara úr úlpunni á dansgólfinu:

Helga Ólafs og Valdís Guðmunds voru í góðum gír

Tuesday, April 8, 2008

Enn og aftur á túr

Jæja, þá er komið að því að við höldum aftur í hann eftir langt og gott frí.
Ég neita því ekki að maður sé að verða ansi spenntur að komast aftur í tónleikafílinginn, en við förum á 4 vikna Bretlandstúr á fimmtudaginn.
Fyrstu tónleikar okkar verða í Manchester núna á föstudaginn en eftir það verða þrennir stórtónleikar í Hammersmith Apollo í London. Síðan tekur við rútuferðalag um stóra Bretland þar sem að víða verður komið við.

Ég læt hér fylgja ógleymanlegt myndband frá því við vorum í Shanghai en ég gat ekki birt það þegar ég dvaldi þar sökum mikillar ritskoðunar í Kína.
Forsaga myndbandsins er sú að við fórum að sjá ekta kínverska óperu sem var um 5 klukkustunda löng. Í myndbandinu sést hvernig líðan Sigrúnar yngri var þegar einungis 15 mínútur voru liðnar af sýningunni:

Wednesday, March 5, 2008

Heima

Nú erum komin heim eftir sólahrings ferðalag frá Shanghai.
Ég geri ráð fyrir eilitlu blogghléi næstu 5 vikurnar, eða þar til við höldum aftur í hann á hressandi Englandstúr.

Ég bið ykkur vel að lifa,
Valdís Þorkelsdóttir

Friday, February 29, 2008

Hong Kong, Kína

Í gærkvöldi spiluðum við við góðar undirtektir í risaskemmu í Hong Kong, en þess má geta að hinir margfrægu Backstreet Boys munu troða þar upp í kvöld. Gaman að því.
Nú erum við hins vegar komin til Shanghai, eftir ei þrautalaust ferðalag frá Hong Kong.
En eins og flestir vita er mikil mannmergð í Kína, það má segja að það sé fólk alls staðar, í öllum hliðargötum, á hverju götuhorni. Umferðin er eftir því en við vorum í tæpa 3 klukkutíma á leiðinni frá flugvellinum á hótelið.
En framundan eru lokatónleikar okkar á þessum massíva túr, en við spilum í Shanghai Changning Arena núna á sunnudaginn kemur.

Mistur í Hong Kong


Erla í einum af rúllustigunum í Soho-brekkunni í Hong Kong


Sviðið í Hong Kong skemmunni


Brynja sefur í rútunni og Særún hlær