Thursday, May 3, 2007

Radio City

Í gær spiluðum við í hinu magnaða Radio City. Stressið var býsna mikið fyrir tónleikana en blessunarlega hvarf það líkt og dögg fyrir sólu um leið og við stigum á stokk.
Upphafslagið var skreytt með 16 eldsprengjum sem voru beint fyrir aftan okkur og var það ansi töff sviðsbrella. Hins vegar var ekki eins töff hóp-hóstakastið sem við brasspíurnar fengum af öllum reyknum sem fylgdi sprengjunum. Sumir urðu að bregða á það ráð að halda handklæði fyrir vitum sér en reykurinn staldraði við í 2 lög.
Þegar Jóga fór í gang birtist einn óvæntur gestur á sviðinu í trans-dans-stuði, en hann var greinilega að spila fyrir eitthvert annað lið en Bakkusar. Dansatriði óboðna sviðsgestsins varði reyndar ekki lengi þar sem að risastór svartur dyravörður var snöggur að draga hann af sviðinu. Sá ég útundan mér að þeir tóku þar einn léttan magadans.

Eftir tónleikana var eftirpartý, og síðan eftir-eftirpartý sem var í boði gaurana sem eru í hljómsveitinni Peter, Björn og John, sem ég þekkti reyndar ekki í sjón. En ég held að þeir hafi verið ansi hressir.

Annars er allt gott að frétta úr Stóra eplinu, við erum búnar að taka ansi góða verslunartörn, sem er nú aldeilis gott fyrir sálina. Við dveljum á einu flottasta hótelinu á Times Square og stíllinn er eftir því, gráir veggir, svart baðherbergi, flatskjár og anddyri með vatnsveggjum og lofti.
Loks var einn mikilvægasti áfangi ferðarinnar kláraður í gær þegar við fundum lítið sniðugt mexíkóskt þvottahús þar sem við hentum óhreinatauinu í vingjarnleg andlit starfsmanna þvottahússins. Þetta var sögulega ódýr þvottur, einungis 7 dollarar fyrir tvo poka af skítugu taui.
Á fína dýra hótelinu okkar, er líka boðið upp á þvottaþjónustu, sem Harpa básúna þáði, en hún vissi ekki að þvottaferðin myndi kosta hana 15 þús ísl. kr. sem er um það bil andvirði þvottsins.


Stuðmyndir:



Salurinn í Radio City er ekkert svo lítill


ég og Sylvía í stuði í hljóðprufunni


sviðsfánarnir eru fagrir


Andrea farðar Sylvíu


það væsir ekki um okkur í búningaherbeginu


tónleikaskótauið


ein í stresskasti fyrir tónleika


allir hressir eftir giggið


Valdís með ís á Times Square

4 comments:

Anonymous said...

Iss, ég hef komið til NY og séð Radio City að utan, skítapleis...

Nei, annars, gaman að lesa um ævintýri ykkar og ég hugsa að ég þurfi ekki einu sinni að óska þér góðrar skemmtunar, mér sýnist allt vera í góða standi...
kv
Steinþór Helgi

Anonymous said...

þessi ferð er náttla alltof mikið madness.
Ég öfunda þig frekar mikið hérna, meðan ég reyni að læra eitthvað:(

vertu nú samt duglegri að bomba inn færslum, þetta er gott efni....

skemmtu þér vel,
kveðja,
Ronnie gamli

Anonymous said...

Þetta er snilld! Þú þarft bara að vera duglegri að setja inn færslur. Hvenær kemuru annars heim? Helduru að þú veriðr komin áður en ég fer til Hawaii?

kv, steini

Atli said...

Hæ Valdís, gaman að það er gaman. Ertu til í að skila kveðju til Sylvíu fyrir mig?

Ble.